Þrjú mörk og Víkingur í toppsætið

Karl Friðleifur Gunnarsson og Ólafur Guðmundsson í leiknum í kvöld.
Karl Friðleifur Gunnarsson og Ólafur Guðmundsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur úr Reykjavík er kominn aftur upp í toppsæti Bestu deildar karla í fótbolta eftir sigur á FH, 3:0, á heimavelli í lokaleik fyrstu umferðar efri hlutans í Víkinni í kvöld.

Víkingur er með 52 stig eins og Breiðablik en með betri markatölu. FH er áfram í sjötta sæti með 33 stig, sex stigum frá Val og Evrópusæti.

FH-ingarnir fengu fyrsta góða færið á 8. mínútu þegar Björn Daníel Sverrisson skallaði í slána eftir horn frá Arnóri Borg Guðjohnsen.

Það voru hins vegar Víkingarnir sem skoruðu fyrsta markið á 13. mínútu er Helgi Guðjónsson slapp einn í gegn og skoraði af öryggi eftir glæsilega sendingu frá Aroni Elís Þrándarsyni.

Tarik Ibrahimagic var nálægt því að tvöfalda forskotið á 21. mínútu er hann átti gott skot rétt utan teigs sem Daði Freyr Arnarsson í marki FH varði vel.

Ingimar Torbjörnsson Stöle komst næst því að skora fyrir FH í fyrri hálfleik er hann átti fast skot rétt utan teigs á 45. mínútu og Ingvar Jónsson í marki Víkinga varði vel.

Fleiri urðu mörkin í hálfleiknum því ekki og var staðan 1:0, Víkingi í vil, þegar Jóhann Ingi Jónsson flautaði til hálfleiks.

Liðunum gekk illa að skapa sér góð færi framan af í seinni hálfleik. Bæði lið voru nokkrum sinnum nálægt því að komast í góðar stöður en slök síðasta sending skemmdi gjarnan fyrir.

Þannig var það allt fram að 73. mínútu er Víkingur komst í 2:0. Helgi Guðjónsson bætti þá við sínu öðru marki með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Karli Friðleifi Gunnarssyni.

Helgi var nálægt því að skora sitt þriðja mark á 82. mínútu er hann slapp í gegn eftir sendingu frá varamanninum Daða Berg Jónssyni en Daði varði vel frá framherjanum. Danijel Dejan Djuric átti fast skot utarlega í teignum tveimur mínútum síðar en aftur varði Daði vel.

Daði kom hins vegar ekki vörnum við á lokamínútunni er varamaðurinn Viktor Örlygur Andrason skoraði beint úr aukaspyrnu og breytti stöðunni í 3:0. Urðu það lokatölurnar í Víkinni.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 3:0 FH opna loka
90. mín. Viktor Örlygur Andrason (Víkingur R.) skorar 3:0 - Viktor gerir sér lítið fyrir og skorar beint úr aukaspyrnunni! Þetta var alls ekki alveg í hornið og Daði átti að gera betur í markinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert