Jóhannes Karl samdi við Stjörnuna

Jóhannes Karl Sigursteinsson verður áfram með Stjörnuna.
Jóhannes Karl Sigursteinsson verður áfram með Stjörnuna. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnudeild Stjörnunnar og Jóhannes Karl Sigursteinsson hafa komist að samkomulagi um nýjan tveggja ára samning og mun hann því halda þjálfun kvennaliðs félagsins áfram.

Jóhannes tók við Stjörnuliðinu af Kristjáni Guðmundssyni á miðju tímabili. Undir hans stjórn endaði Stjarnan í efsta sæti neðri hluta Bestu deildarinnar með 25 stig, sex stigum meira en Tindastóll sem varð í sætinu fyrir neðan.

„Ég er virkilega spenntur að fá tækifæri til að halda áfram að vinna með þennan frábæra hóp. Við erum með sterkan kjarna reynslumikilla leikmanna, í bland við ungar og efnilegar stelpur sem eru að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi.

Það er einstakt að fá að taka þátt í því að móta þetta lið og byggja það upp til framtíðar. Ég hlakka til að sjá hversu langt við getum náð saman á næstu árum,“ er haft eftir honum í yfirlýsingu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert