Bestur í 23. umferðinni

Steinþór Már Auðunsson.
Steinþór Már Auðunsson. mbl.is/Óttar Geirsson

Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, var besti leikmaður 23. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins.

Steinþór Már átti mjög góðan leik fyrir KA þegar liðið gerði jafntefli gegn HK, 3:3, í neðri hluta deildarinnar og fékk tvö M fyrir frammistöðu sína i leiknum sem fram fór á Akureyri miðvikudaginn 25. september.

23. umferðin var leikin sunnudaginn 22. september, mánudaginn 23. september og kláraðist svo með tveimur leikjum á miðvikudaginn.

Steinþór Már, sem er 34 ára gamall, hefur verið í fantaformi fyrir Akureyringa í síðustu leikjum en hann var einn besti leikmaður liðsins þegar KA varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni eftir sigur gegn Víkingi úr Reykjavík í úrslitaleik bikarkeppninnar á Laugardalsvelli laugardaginn 21. september.

Markvörðurinn á að baki áhugaverðan feril en hann er uppalinn hjá KA en steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Völsungi á Húsavík í 2. deildinni árið 2010. Þaðan lá leiðin til Dalvíkur þar sem hann lék í tvö og hálft tímabil áður en hann samdi við Þór þar sem hann var í eitt tímabil.

Nánar um Steinþór Má á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag sem og úrvalslið 23. umferðar Bestu deildar karla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert