Hermann hættur með ÍBV

Hermann Hreiðarsson á hliðarlínunni í síðasta leik ÍBV í haust, …
Hermann Hreiðarsson á hliðarlínunni í síðasta leik ÍBV í haust, gegn Leikni í Reykjavík, þegar liðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni. mbl.is/Ólafur Árdal

Hermann Hreiðarsson er hættur störfum sem þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu eftir að hafa stýrt liðinu upp í Bestu deildina í ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu ÍBV en Hermann hefur þjálfað Eyjaliðið undanfarin þrjú ár. Liðið féll niður í 1. deild haustið 2023 en vann sér á dögunum sæti í Bestu deildinni á ný með því að standa uppi sem sigurvegari í 1. deild eftir afar tvísýna keppni.

Í tilkynningunni kemur fram að eindreginn vilji stjórnar knattspyrnudeildar hafi verið fyrir því að Hermann yrði áfram þjálfari ÍBV en hann sé að hætta vegna breytinga á búsetu sinni og  fjölskyldu sinar, og hann hafi því ekki tök á að halda áfram.

Hermann, sem er fimmtugur, var landsliðs- og atvinnumaður um langt árabil og hans fyrsta verkefni sem aðalþjálfari liðs var hjá ÍBV árið 2013 en hann sneri síðan aftur á heimaslóðirnar til að taka við ÍBV í árslok 2021.

Í millitíðinni þjálfaði hann bæði karla- og kvennalið Fylkis og karlalið Þróttar í Vogum, en var um skeið aðstoðarþjálfari hjá Kerala Blasters á Indlandi og hjá enska liðinu Southend United þar sem hann aðstoðaði fyrst David James og síðan Sol Campbell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert