Rúnar ósáttur: Þetta er glatað fyrirkomulag

Rúnar Kristinsson fékk stóran skell á gamla heimavellinum.
Rúnar Kristinsson fékk stóran skell á gamla heimavellinum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég hef engin svör,“ sagði sagði mjög svekktur Rúnar Kristinsson þjálfari Fram í samtali við mbl.is eftir að hann fékk stóran skell gegn uppeldisfélaginu KR í Frostaskjóli í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta í dag, 7:1.

KR er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, á meðan Fram hefur þegar tryggt sér áframhaldandi veru í efstu deild. Það var því mun meira undir fyrir KR og það sást á frammistöðu beggja liða í dag.

„Það virtist eins og mótið okkar væri búið þegar við komum hingað. Við höfum lítið til að spila fyrir. Við höfum unnið hart að því í vikunni að reyna að gíra menn upp. Það er alltaf gaman að koma á KR-völl og spila fótboltaleik.

Rúnar Kristinsson fékk stóran skell á gamla heimavellinum í dag.
Rúnar Kristinsson fékk stóran skell á gamla heimavellinum í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Við vorum hins vegar ekki tilbúnir frá fyrstu mínútu og þeir hlupu yfir okkur, tækluðu okkur og ýttu okkur úr stöðum. Við vorum ekki tilbúnir að takast á við það.

„Við eigum einn séns í stöðunni 2:0 og þeir bjarga á línu og fara síðan upp og skora. Það var algjörlega verðskuldað að staðan var 4:0 í hálfleik. Við gátum ekki neitt og vorum undir í baráttu. Það var enginn tilbúinn í baráttu eða tæklingar,“ sagði Rúnar og hélt áfram:

„KR er að bjarga fyrir lífi sínu í deildinni, við erum það ekki. Þá læðist það að mönnum að taka því rólega og það gengur ekki þegar við erum að spila við lið eins og KR. Við mættum allt öðruvísi til leiks um síðustu helgi, þegar við þurftum á stigunum að halda. Í dag var allt annað Framlið, Framlið sem ég þekki ekki.

Adam Örn Arnarson í baráttunni í dag.
Adam Örn Arnarson í baráttunni í dag. Ólafur Árdal

Ég er ofboðslega svekktur yfir þessu og þykir þetta leiðinlegt. Svona er fótboltinn. Þetta fyrirkomulag er ömurlegt fyrir lið sem eru búin og hafa ekki að neinu að spila. Það er leikur næstu helgi, svo landsliðspása og síðan tveir leikir. Þetta er glatað fyrirkomulag,“ sagði Rúnar, ómyrkur í máli.

Það heyrðist lítið í klefanum hjá Frömurum eftir leik, enda voru leikmenn bragðdaufir eftir vondan skell.

„Menn vita upp á sig sökina. Það hjálpar engum að vera með læti eftir leik í dag. Menn fara heim og svo er það næsta æfing. Við förum yfir hlutina og tölum um hvernig við ætlum að enda þetta mót. Við viljum gera þetta á almennilegum nótum.

Auðvitað erum við laskaðir. Það voru þrír í banni og svo leikmenn sem eru meiddir, en það gefur öðrum tækifæri til að sýna sig. Það er ekki hægt að kenna yngri strákunum um. Leikmennirnir sem komu inn í dag þurfa stuðning frá þessum betri leikmönnum sem spila alla leiki,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert