Þurfum að hafa trú á þessu

Rúnar Páll Sigmundsson talar við Arnór Breka Ásþórsson.
Rúnar Páll Sigmundsson talar við Arnór Breka Ásþórsson. mbl.is/Ólafur Árdal

Fylkir þurfti að þola 3:1-tap gegn KA í neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í Árbænum í dag. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var að vonum svekktur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Við spiluðum ótrúlega vel í dag. Vorum grimmir og sköpuðum fullt af möguleikum og fínum færum.

Síðan er okkur bara refsað. Í öðru og þriðja markinu er okkur refsað grimmilega þegar við erum að sækja og þeir fara í skyndisókn á okkur.

Við eigum samt að gera betur í öllum þessum mörkum. Mark eftir 30 sekúndur á okkur en við brugðumst samt vel við því. Áttum allan fyrri hálfleikinn og alveg fram að 3:1 markinu fannst mér við eiga þennan leik. Við fáum ekkert stig fyrir það og það er leiðinlegt.“

Ertu ekki orðinn dálítið þreyttur á því að fara með þessa sömu tuggu alltaf, að þið voruð góðir en náðuð ekki í stig?

„Jú þetta er bara hundleiðinlegt. En maður er orðinn góður í því að fara með sömu tugguna alltaf, þetta er bara þannig. En vonandi náum við að fara með aðra tuggu í næstu þremur leikjum og það er auðvitað markmiðið okkar. Við erum í þessu ennþá og við þurfum að hafa trú á þessu,“ sagði Rúnar Páll.

Það eru þrír leikir eftir af mótinu og þið eruð fimm stigum frá öruggu sæti. Ertu bjartsýnn á að halda ykkur uppi?

„Já ég verð að vera það. Ef ég er það ekki þá erum við í slæmum málum,“ sagði Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert