Við skuldum þeim alvöru frammistöðu

Ólafur Guðmundsson úr FH og Ísak Snær Þorvaldsson úr Breiðabliki …
Ólafur Guðmundsson úr FH og Ísak Snær Þorvaldsson úr Breiðabliki í baráttu í Kaplakrika í dag. Ólafur Árdal

Björn Daníel Sverrisson fyrirliði FH fór meiddur af velli í 1:0 tapleik gegn Breiðabliki á Kaplakrikavelli í dag, en hann hefur verið að glíma við meiðsli framan á læri frá leiknum gegn Fram.

Björn Daníel vonast þó til þess að vera orðinn klár fyrir leikinn gegn ÍA sem fram fer á Akranesi eftir slétta viku. Við spurðum Björn Daníel hvað hafi valdið því að FH tapaði dýrmætum stigum í baráttunni um Evrópusæti í dag:

„Þetta var járn í járn leikur framan af en það sem ræður úrslitum er að þeir skora mark sem kemur beint úr hornspyrnu. Það var bara óheppni en vandamálið okkar var að nýttum ekki þau færi sem við fengum og kláruðum ekki sóknirnar sem þýddi að við fengum skyndisóknir í bakið.

Síðan vantaði okkur líka upp á pressuna en jafntefli hefði litlu máli skipt fyrir okkur því við hefðum þurft að vinna alla leiki sem eftir voru."

Þannig að Evrópusætið er úr sögunni fyrir ykkur?

„Ekki tölfræðilega en þetta eru orðnar litlar líkur núna, sérstaklega í ljósi þess að þetta eru bara þrjú sæti sem gefa Evrópusæti. Við förum samt í alla leiki til að vinna en það þarf mikið að gerast svo við náum Evrópusæti.

Þetta er bara svolítið sagan okkar í sumar. Það hafa verið margir leikir þar sem við höfum verið með yfirhöndina en fáum á okkur mark og þurfum að að koma til baka. Við erum bara búnir að fá á okkur alltof mörg mörk í sumar. Það er erfitt að vinna leiki þegar það er þannig."

Kanntu skýringar á því afhverju FH er að tapa niður hálfunnum leikjum og eruð að lenda undir of oft?

Björn Daníel Sverrisson er fyrirliði FH.
Björn Daníel Sverrisson er fyrirliði FH. mbl.is/Ólafur Árdal

„Nei ef ég vissi það þá væri ég líklega orðinn ríkur. Ef ég ber saman tímabilið í ár miðað við í fyrra þá finnst mér við vera að spila þetta tímabil betur og vera með yfirhöndina en í fyrra vorum við að ná í stig sem við áttum kannski ekkert skilið.

Það sem við þurfum að gera er að setjast niður eftir tímabilið og fara yfir þessa hluti. Síðan þarf að bæta þessa hluti og ég hef fulla trú á þessum hópi sem á framtíðina fyrir sér. Ég er mjög þakklátur fyrir að fá eitt ár í viðbót með þessu liði sem ég tel að eigi mikið inni.

Við þurfum samt að klára þetta tímabil með sæmd og mér finnst við skulda stuðningsmönnum alvöru frammistöðu í síðasta heimaleiknum sem verður gegn Val. Það væri gaman að fá fullt af fólki á þann leik og ég lofa að við setjum allt okkar í hann."

Næsti leikur er ÍA á Akranesi sem þarf að vinnast til að halda í tölfræðilegan möguleika á 3. sætinu. Hvað þarf FH að gera til að ná í þrjú stig upp á Skaga?

„Við þurfum í fyrsta lagi að skora mörk og nýta stöðurnar sem við komumst í. Við þurfum að halda boltanum niðri og spila honum betur. Það er samt þannig að grasvellirnir verða ósléttari í lok tímabils og þá vill boltinn oft vera á flugi.

En ef þú ætlar að vinna Skagann þá þarftu að vera klár í þannig fótbolta. Nú bara undirbúum við okkur fyrir þann leik og ég þarf að ná að jafna mig á þessum meiðslum fyrir þann leik," sagði Björn Daníel í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert