Samkvæmt heimildum mbl.is var Benoný Breki Andrésson, knattspyrnumaður í KR og markakóngur Bestu deildarinnar, í viðræðum í gær við fulltrúa ensks félags sem er staðsett í nágrenni Manchester.
Samkvæmt Kristjáni Óla Sigurðssyni, sérfræðingi í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin, er umrætt félag Stockport.
Stockport leikur í ensku C-deildinni og situr í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig eftir 16 leiki. Liðið vann ensku D-deildina á síðustu leiktíð og hefur farið upp um þrjár deildir á síðustu fimm árum.
Benoný Breki, sem er 19 ára, sló markamet í efstu deild á Íslandi með því að skora 21 mark í 26 leikjum í sumar.