„Bæði og,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is þegar hann var spurður að því hvort brotthvarf landsliðsþjálfarans fyrrverandi Åge Hareide hefði komið honum á óvart.
Hareide, sem er 71 árs gamall, sagði starfi sínu lausu sem þjálfari íslenska liðsins í lok síðasta mánaðar eftir rúmlega eitt og hálft ár í starfi.
„Hann hefur sínar ástæður en manni finnst kannski leiðinlegast í þessu öllu saman að hann gat í raun aldrei stillt upp sínu sterkasta liði sem þjálfari liðsins,“ sagði Jóhann Berg.
„Albert Guðmundsson var mikið fjarverandi, Hákon Arnar Haraldsson var meiddur í Þjóðadeildinni og Sverrir Ingi var að glíma við hnémeiðsli lengi vel. Það fylgir því ákveðið svekkelsi því við erum lítið land og við þurfum okkar sterkustu leikmenn ef við ætlum okkur að ná í úrslit.
Það er óskandi að næsti þjálfari liðsins verði ekki í sömu vandræðum og Hareide. Það var leiðinlegt að sjá Hareide hætta því hann var frábær fyrir okkur og náði vel til leikmannanna. Hlutirnir féllu ekki með honum og það er eftirsjá að honum,“ sagði Jóhann Berg í samtali við mbl.is.