Hvað þarf að gerast svo Ísland komist í 8-liða úrslitin?

Ísland á möguleika á að tryggja sér sæti í 8-liða …
Ísland á möguleika á að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum EM 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir því franska í lokaleik beggja liða í D-riðli EM 2022 í Rotherham annað kvöld. Ýmislegt þarf að ganga upp til þess að Ísland tryggi sér annað sæti riðilsins og þar með sæti í 8-liða úrslitum mótsins.

Ógnarsterkt lið Frakklands er þegar búið að vinna riðilinn með því að hafa betur gegn bæði Ítalíu og Belgíu. Á meðan eiga öll hin þrjú liðin, Ísland, Ítalía og Belgía, möguleika á öðru sætinu.

Fyrir lokaumferðina er staðan í D-riðlinum svona:

Lið

L

Mörk

Stig

Frakkland

2

7:2

6

Ísland

2

2:2

2

Belgía

2

2:3

1

Ítalía

2

2:6

1

Þar sem Ísland er í öðru sæti fyrir hana eftir jafntefli gegn bæði Belgíu og Ítalíu mun sigur gegn Frakklandi ávallt nægja til þess að tryggja sætið.

Ísland fer einnig áfram ef liðið gerir jafntefli við Frakkland og Belgía og Ítalía gera sömuleiðis jafntefli.

Ísland kemst ekki áfram ef liðinu tekst ekki að vinna Frakkland og leik Belga og Ítala lyktar ekki með jafntefli.

Ef íslenska liðið tapar annað kvöld getur það farið áfram en þá flækjast málin hins vegar umtalsvert enda þyrfti Ísland að treysta á hagstæð úrslit í leik Belgíu og Ítalíu sem fer fram á sama tíma.

Tapi Ísland og Belgía og Ítalía gera jafntefli verða öll þrjú liðin með tvö stig að loknum þremur umferðum. Þá gildir markatala liðanna í innbyrðis leikjum.

Komi þessi staða upp hafa öll þrjú liðin gert jafntefli við hvert annað en þá fer liðið sem skoraði flest mörk í innbyrðis leikjum þeirra áfram. Ef liðin skora jafn mörg mörk gildir markatala liðanna í heild sinni.

Ljúki leik Belgíu og Ítalíu með markalausu jafntefli fer Ísland áfram sama hvernig leikur liðsins gegn Frakklandi fer.

Ljúki honum með 1:1-jafntefli gildir markatalan í heild. Þá hafa öll þrjú liðin skorað tvö mörk og fengið á sig tvö í innbyrðis leikjum sínum. Ítalía tapaði 1:5 fyrir Frökkum en Belgía 1:2. Tapi Ísland sömuleiðis 1:2 fyrir Frakklandi fer liðið með færri gul og rauð spjöld áfram og stendur Ísland þar best að vígi sem stendur. Tapi Ísland með einu marki en skorar tvö mörk eða fleiri fer Ísland áfram. Tapi Ísland hins vegar 0:1 fer Belgía áfram. Tapi Ísland svo með tveimur mörkum eða fleiri fer Belgía einnig áfram.

Ljúki leik Belgíu og Ítalíu með 2:2-jafntefli væru bæði lið með fleiri mörk skoruð en Ísland í innbyrðis viðureignum liðanna þriggja og Ísland þar með úr leik með hvers konar tapi gegn Frakklandi. Belgía fer þá áfram á bestu markatölunni af liðunum þremur. Ljúki leiknum með jafntefli með enn fleiri mörkum skoruðum gildir það sama.

Leikur Frakklands og Íslands hefst klukkan 19 annað kvöld og fer fram á New York-vellinum í Rotherham.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin