England er Evrópumeistari kvenna í fótbolta í fyrsta skipti eftir 2:1-sigur á Þýskalandi í framlengdum úrslitaleik á Wembley í dag. Chloe Kelly, sóknarmaður Manchester City, skoraði sigurmarkið á 110. mínútu.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik. Spennustigið var hátt og stál í stál á milli tveggja góðra liða.
Ellen White komst næst því að skora fyrir enska liðið í fyrri hálfleik en hún skaut rétt yfir úr fínu færi í teignum. Skömmu á undan skallaði Lucy Bronze að marki en Merle Frohms í marki Þjóðverja varði vel.
Leah Williamson, fyrirliði Englendinga, varði glæsilega á marklínu þegar Marina Hegering gerði sig líklega í teignum eftir horn. Rétt á undan fékk Williams boltann í höndina innan teigs, en þrátt fyrir skoðun í VAR var ekkert víti dæmt og var staðan í leikhléi því 0:0.
Seinni hálfleikurinn var ekki ósvipaður og sá fyrri, þar sem allt var í járnum. Það breyttist hinsvegar á 62. mínútu þegar varamaðurinn Ella Toone kom enska liðinu yfir þegar hún slapp ein í gegn og lyfti boltanum stórglæsilega yfir Marle Frohms í marki Þjóðverja.
Eftir markið sótti Þýskaland meira og það skilaði sér í jöfnunarmarkinu á 79. mínútu þegar Lina Magull skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Tabeu Wassmuth. Lítið var um færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var staðan eftir venjulegan leiktíma 1:1 og því varð að framlengja.
Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik framlengingarinnar og var ansi líklegt að leikurinn myndi enda í vítaspyrnukeppni. Áðurnefnd Kelly hafði hinsvegar lítinn áhuga á því og hún skoraði sigurmarkið þegar hún var fyrst að átta sig eftir horn og skoraði af stuttu færi.
Þjóðverjum tókst ekki að skapa sér færi eftir markið og enska liðið fagnaði vel og innilega í leikslok.