Björgvin Páll algjör „sprellikarl“ í markinu

Björgvin Páll Gústavsson einbeittur í leiknum í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson einbeittur í leiknum í kvöld. Ljósmynd/EHF

Sænskir handknattleikssérfræðingar hafa í kvöld reynt að finna svörin við ósigri Svíþjóðar gegn Íslandi í fyrsta leik á Evrópumótinu í Króatíu þar sem Ísland vann öruggan sigur jafnvel þótt aðeins tvö mörk hafi skilið að í lokin, 26:24.

Handknattleiksþjálfarinn Magnus Grahn er sérfræðingur SVT og hann segir að fyrst og fremst eigi að gagnrýna vörn Svía.

„Það voru stórar glufur í vörninni og að gera svona grundvallarmistök á þessu stigi íþróttarinnar á ekki að sjást. Við bættum okkur í vörninni undir lokin en vorum heilt yfir of slakir,“ sagði Grahn og tók einnig fyrir frammistöðu Björgvins Páls Gústavssonar í íslenska markinu.

„Fyrst og fremst voru þeir með algjöran sprellikarl (s. sprattelgubbe) í markinu,“ sagði Grahn og meinti það sem hrós til Björgvins sem varði 17 skot í íslenska markinu.

„Leikfangið sprellikarl. Það var gert úr pappa eða tréplötu. Búinn var til búkur, haus og útlimir. Á hvern útlim voru fest bönd sem öll tengdust síðan saman. Niður úr þeim gekk enn eitt band sem togað var í þannig að karlinn baðaði út öllum öngum,“ segir á vef Árnastofnunar um hið gamalkunna leikfang.

Björgvin Páll Gústavsson ver frá Jerry Tollbring í leiknum.
Björgvin Páll Gústavsson ver frá Jerry Tollbring í leiknum. Ljósmynd/EHF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert