„Helvítis vesen“

Kári Kristján Kristjánsson.
Kári Kristján Kristjánsson. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Þetta verður ekkert mál. Króatía vinnur á eftir og við förum áfram með tvö stig,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is eftir tap fyrir Serbíu 29:26 á EM í Króatíu sem þýðir að Ísland þarf að bíða örlaga sinna í kvöld.

Ísland þarf að treysta á að Króatía vinni leikinn við Svía. Ef Svíar vinna eða gera jafntefli er Ísland úr leik, en strákarnir voru engu að síður komnir í þægilega stöðu gegn Serbíu að því er virtist og voru fjórum mörkum yfir í síðari hálfleik. 

„Mér fannst allt vera með okkur, en þegar við komumst í þriggja til fjögurra marka forskoti þá fengum við alltaf mark aftur í bakið. Við náðum aldrei að halda sjó með þessa forystu og fengum ekki að standa vörnina. Svo gengu þeir á lagið þegar við gerum mistök og ná að refsa okkur. Helvítis vesen,“ sagði Kári.

En var stress farið að gera vart við sig á lokakaflanum vegna hættunnar á því að falla úr keppni og fara heim eftir riðlakeppnina?

„Þetta var pottþétt að hellast yfir menn, en við verðum bara að læra af þessu einn, tveir og þrír. Við erum að fara áfram eins og ég segi, Króatía mun vinna á eftir og þá þurfum við að vera reynslunni ríkari. Við megum ekki fara inn í skelina þegar allt er undir. Þá verða menn að stíga fram, enginn mun gera þetta fyrir okkur,“ sagði Kári við mbl.is í Split.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert