Var ekki viss hvort boltinn væri inni

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson.

„Eins mikið og ég sakna fjölskyldunnar þá hef ég engan áhuga á því að sjá hana næstu daga,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, hetja íslenska landsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 29:26 tap fyrir Serbíu á EM í Króatíu. Hann vill sannarlega vera áfram í Króatíu.

Björgvin Páll varði lokaskot Serbíu í leiknum og tryggði Íslandi von um að komast í milliriðla, ef Króatía vinnur Svíþjóð í kvöld. Ef Serbía hefði unnið með fjórum mörkum væri Ísland úr leik.

„Þeir tóku leikhlé og við vissum ekki alveg hvað myndi gerast. Þeir tóku þvingað skot á milli varnarmanna. Ég sá boltann seint, fæ hann í klofið og næ einhvern veginn að setjast á hann. Ég var ekki viss hvort boltinn hafði farið yfir línuna og var mjög létt þegar svo var ekki. Þrátt fyrir það er erfitt að fagna,“ sagði Björgvin Páll.

En hvað fór í gegnum hugann undir lok leiksins þegar Ísland þurfti að verjast Serbum á síðustu sjö sekúndunum en að öðrum kosti pakka niður og fara heim af EM?

„Voða lítið. Bara vonbrigði í hausnum á manni að hafa klúðrað þessu svona. Þjóðin átti inni hjá okkur að verja þennan síðasta bolta, til að eiga ennþá möguleika,“ sagði Björgvin Páll.

Björgvin sneri sig á ökkla í upphitun fyrir leikinn gegn Króatíu. Háir það honum á vellinum?

„Nei, íslenska geðveikin nær að slökkva á öllu sem tengist einhverjum verk. Ég er í góðum höndum hjá sjúkrateyminu og það er eiginlega magnað að ég skuli vera að spila miðað við áverkann,“ sagði Björgvin ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert