„Mér hefur fundist liðið vera á réttri leið“

Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. Ljósmynd/Uros Hocevar

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, segist vera ánægður með hvernig leikur liðsins hefur þróast síðasta árið en hann hefur nú stýrt liðinu á tveimur stórmótum, HM í Frakklandi og EM í Króatíu. 

Mbl.is bað Geir um að bera saman spilamennsku liðsins í Króatíu nú og í Frakklandi í fyrra. „Ég er mjög ánægður með þá þróun sem verið hefur á liðinu frá þeim tímapunkti. Ég held að sú frammistaða sem við fengum í Frakklandi hafi lofað að mörgu leyti góðu. Vissulega vorum við í ákveðnum vandræðum í sókninni en ég held að við höfum náð að leysa það að mörgu leyti. Þess vegna er ég sáttur við hvernig þróunin hefur verið. Mér hefur fundist liðið vera á réttri leið. Við erum að fá fleiri og fleiri inn í myndina. Fleiri leikmenn sýna virkilega góða frammistöðu. Þessir ungu leikmenn svokallaðir eru að verða vandanum vaxnir og hafa náð að fylgja því vel eftir sem þeir voru byrjaðir að gera. Ef ég skoða frammistöðuna í mótinu sjálfu hér á EM þá velti ég því fyrir mér hvort niðurstaðan liggi í einum leik. Í Frakklandi spiluðum við sex leiki en núna þrjá. Ef við hefðum unnið Serbana í dag þá hefðu held ég allir getað vel við unað og við hefðum verið að gera gott mót. Alla vega fram að milliriðli hvað svo sem hefði gerst þar. Það er hins vegar ekki raunin og maður þarf að átta sig á því hvað gerði það að verkum að svo fór sem fór. Ég ætla að taka einhverja daga í að melta það,“ sagði Geir við mbl.is í gærkvöldi þegar niðurstaðan lá fyrir. 

Einnig er rætt við Geir í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert