Karabatic pirraður - „skrýtinn úrslitaleikur“

Karabatic er svekktur.
Karabatic er svekktur. AFP

Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic á erfitt með að skilja að Svíar séu komnir í úrslit á Evrópumótinu í handbolta. Svíar mæta Spánverjum í úrslitaleik í kvöld en lærisveinar Kristjáns Andréssonar hafa tapað þremur leikjum á mótinu.

Svíþjóð tapaði fyrir Íslandi í fyrsta leik mótsins og tapaði auk þess fyrir Frakklandi og Noregi í milliriðli. Þrátt fyrir það komust Svíar í undanúrslit þar sem þeir sigruðu Dani og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum.

Svíar fagna eftir að sigur á Dönum í framlengdum undanúrslitaleik.
Svíar fagna eftir að sigur á Dönum í framlengdum undanúrslitaleik.

„Þetta er skrýtinn úrslitaleikur. Svíþjóð hefur tapað þremur leikjum og kemst í úrslit á meðan við höfum aðeins tapað einum leik,“ sagði Karabatic en eini leikurinn sem Frakkland hefur tapað var undanúrslitaleikur gegn Spáni.

Karabatic er ósáttur við að bæði liðin sem leika til úrslita hafa tapað fleiri leikjum á mótinu en Frakkland. „Við höfum sannað að við erum eitt af bestu liðum. Úrslitaleikurinn verður undanlegur þar sem annað liðið hefur tapað þremur leikjum og hitt liðið tveimur. Við töpuðum bara einum leik en því miður var það rangur leikur,“ sagði Karabatic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert