Færeyjar máttu þola naumt tap, 28:25, gegn Sviss er liðin mættust í fyrstu umferð D-riðils á EM kvenna í handbolta í Basel í kvöld.
Sviss var með gott forskot í hálfleik, 13:7, og komst svo tíu mörkum yfir snemma í seinni hálfleik, 19:9.
Færeyingar neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt mark þegar skammt var eftir, 25:24. Sviss skoraði hins vegar þrjú af fjórum síðustu mörkunum.
Daphne Gautschi var markahæst hjá Sviss með átta mörk. Jana Mittun og Pernille Brandenborg gerðu sjö mörk hvor fyrir Færeyjar.
Rúmenía vann nauman sigur á Tékklandi, 29:28, í B-riðli. Tékkland komst í 25:22 þegar skammt var eftir en Rúmenía var mun sterkari í lokin.
Bianca Bazaliu skoraði níu mörk fyrir Rúmeníu. Charlota Cholevova skoraði ellefu fyrir Tékkland.