„Ég er frekar súr,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir tap gegn Hollandi, 27:25, í fyrsta leik liðanna á lokamóti EM í Innsbruck í Austurríki í kvöld.
Hollenska liðið er gríðarlega sterkt en það íslenska spilaði mjög vel og hefði með smá heppni getað náð að minnsta kosti jafntefli.
„Við vorum í góðum séns en vorum sjálfum okkur verstar. Á sama tíma spiluðum við frábæran handbolta og sérstaklega í fyrri hálfleik. Við lentum fjórum undir í seinni, sem var erfitt. Þrátt fyrir það komum við til baka en það tók of mikla orku frá okkur,“ sagði Elín og hélt áfram:
„Maður hefði nánast tekið þessum tölum fyrir fram. Niðurstaðan var ótrúlega svekkjandi miðað við hvernig leikurinn spilaðist. Það var sterkt hvernig við komum inn í þennan leik gegn ógeðslega sterku liði,“ sagði hún.
Ísland leikur við Úkraínu á sunnudag í leik sem verður að vinnast ef liðið ætlar sér upp úr riðlinum og í útsláttarkeppnina.
„Maður veit mjög lítið um þær og það verður spennandi. Við erum svekktar núna en klárar í næsta leik,“ sagði Elín Rósa.