Mjög stoltar af frammistöðunni

Thea Imani Sturludóttir í leiknum gegn Hollandi í gærkvöldi.
Thea Imani Sturludóttir í leiknum gegn Hollandi í gærkvöldi. Ljósmynd/Jon Forberg

Thea Imani Sturludóttir, hægri skytta Íslands í handknattleik, segir leikmenn spennta fyrir næsta leik liðsins gegn Úkraínu í F-riðli á EM 2024 annað kvöld. Liðið tapaði með tveimur mörkum fyrir Hollandi í fyrstu umferð í gærkvöldi.

„Við eigum eftir að fara á fyrsta fundinn í dag. Við fengum að sofa aðeins út og fara seint í morgunmat. Við erum ekki búin að ræða leikinn aftur en við erum mjög stoltar af frammistöðunni í gær og viljum halda áfram á þessari leið.

Ég held að það séu allir mjög spenntir að fara strax í næsta leik,“ sagði Thea í samtali við mbl.is á liðshóteli Íslands í Innsbruck í Austurríki í hádeginu í dag.

Thea og Steinunn Björnsdóttir á liðshótelinu í Innsbruck í dag.
Thea og Steinunn Björnsdóttir á liðshótelinu í Innsbruck í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Hún var ánægð með margt í leik íslenska liðsins gegn því hollenska í gærkvöldi og fannst frammistaðan til marks um hversu miklum framförum liðið hefði tekið á undanförnum árum.

„Já, klárlega. Líka það að við náðum góðri byrjun. Það hefur verið svolítið hjá okkur að við séum svolítið klaufalegar í byrjun. En við náðum einmitt góðri byrjun og þá náðum við að halda okkur inni í þessum leik heillengi. Síðan þurfum við bara að ná að klára leikina.“

Fengum gærkvöldið til að svekkja okkur

Thea sagði liðið búið að setja svekkjandi tap fyrir Hollandi í baksýnisspegilinn og hlakki til leiksins gegn Úkraínu.

„Við fengum gærkvöldið til þess að svekkja okkur aðeins. Núna er bara nýr dagur og það eru allir byrjaðir að hugsa um næsta leik.“

Í honum kemur ekkert annað til greina en sigur, sem væri þá fyrsti sigur íslenska kvennalandsliðsins á stórmóti

„Við förum í alla leiki til þess að vinna þá þannig að við viljum klárlega vinna þennan næsta leik,“ sagði Thea ákveðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka