Liverpool tapaði fyrir botnliðinu

Alfie Mawson fagnar sigurmarkinu ásamt félögum sínum.
Alfie Mawson fagnar sigurmarkinu ásamt félögum sínum. AFP

Botnlið Swansea gerði sér lítið fyrir og vann 1:0 sigur gegn Liverpool í lokaleik 24. umferðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Miðvörðurinn Alfie Mawson skoraði sigurmarkið á 41. mínútu en eftir hornspyrnu féll boltinn fyrir fætur hans og hann skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Liverpool var í sókn meira og minna allan leikinn en Swansea-menn börðust hetjulega. Varnarleikur velska liðsins var til fyrirmyndar og Lukasz Fabianski markvörður Swansea var öryggið uppmálað á milli stanganna. Liverpool reyndi allt hvað það gat til að jafna metin og undir lokin fékk Roberto Firmino dauðafæri en hann skallaði í stöngina af stuttu færi og Adam Lallana sem náði frákastinu tókst ekki að koma boltanum í netið.

Eftir frábæran sigur gegn Manchester City í síðustu umferð voru þessi úrslit gríðarleg vonbrigði fyrir Liverpool sem hafði fyrir leikinn í kvöld ekki tapað 14 deildarleikjum í röð og 19 í öllum keppnum en síðasti tapleikur liðsins var gegn Tottenham fyrir sléttum þremur mánuðum. Liverpool er í 4. sætinu, þremur stigum á eftir Chelsea.

Þrátt fyrir sigurinn er Swansea enn í botnsæti deildarinnar. Liðið er með 20 stig eins og WBA en þessi sigur hlýtur að virka eins og vítamínssprauta á leikmenn liðsins.

Swansea 1:0 Liverpool opna loka
90. mín. Emre Can (Liverpool) á skot framhjá +1 Fjórum mínútum var bætt við leikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert