Fellaini frá næstu mánuði

Fellaini gengur af velli í gær.
Fellaini gengur af velli í gær. AFP

Belgíski knattspyrnumaðurinn Marouane Fellaini verður ekkert með Manchester United næstu tvo mánuðina vegna meiðsla sem hann varð fyrir í 2:0-tapinu gegn Tottenham í gær. 

Fellaini kom inn á sem varamaður á 63. mínútu en varð að fara af velli sjö mínútum síðar vegna meiðsla, en margir héldu að hann hafi verið tekinn af velli vegna slakrar frammistöðu. Nú er hins vegar komið í ljós að Fellaini varð fyrir hnémeiðslum er hann reyndi að taka boltann af Christan Eriksen, leikmanni Tottenham. 

Belginn stóri og stæðilegi skaddaði liðbönd í hnénu og þarf hann að fara í aðgerð til að fá bót meina sinna. Hann missir m.a af leikjunum við Sevilla í 16-liða úrslitum Meistaradeild Evrópu vegna meiðslanna. 

Þetta er í þriðja skipti á síðustu fjórum mánuðum sem Fellaini meiðist á sama hné. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert