Snýr vonandi til baka með bros á vör

Riyad Mahrez.
Riyad Mahrez. AFP

„Leicester mun hjálpa Riyad Mahrez að koma til baka með bros á vör,“ segir Claude Puel, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Leicester City.

Ekkert varð af félagaskiptum Alsíringsins til Manchester City í gær á lokadegi félagaskiptagluggans en fyrr í vikunni óskaði hann eftir því að vera settur á sölulista.

Manchester City bauð Leiceseter 55 milljónir punda í miðjumanninn snjalla en því tilboði var hafnað af forráðamönnum Leicester. Það setti 95 milljóna punda verðmiða á Mahrez sem City var ekki tilbúið að ganga að.

Vegna stöðunnar var Mahrez ekki í leikmannahópi Leicester í gær sem tapaði fyrir Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum hans í Everton á Goodison Park, 2:1.

„Þetta var erfið staða fyrir Riyad. Ég vona að hann snúi til baka með bros á vör og verði ánægður að spila með liðsfélögum sínum. Þetta eru kannski vonbrigði fyrir Riyad en ég held að allir leikmenn í liðinu muni hjálpa honum,“ sagði Puel.

Mahrez gekk í raðir Leicester í janúar 2014. Hann var valinn leikmaður ársins eftir að Leicester vann óvænt Englandsmeistaratitilinn árið 2016. Hann hefur skorað 35 mörk og lagt upp 24 í 127 leikjum með Leicester í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert