Hef elskað þetta félag frá því ég var ungur

Mohamed Salah hefur farið á kostum með liði Liverpool á …
Mohamed Salah hefur farið á kostum með liði Liverpool á leiktíðinni. AFP

Egyptinn Mohamed Salah segist hafa alist upp sem stuðningsmaður Liverpool og metnaður hans hafi alltaf falist í að komast til liðsins.

Liverpool keypti Salah frá Roma síðastliðið sumar fyrir 34 milljónir punda og óhætt er að segja að þessu fé hafi verið vel varið. Egyptinn hefur verið magnaður á tímabilinu og hefur skorað 28 mörk í öllum keppnum með liðinu.

Salah, sem var samningsbundinn Chelsea í tvö ár en fékk fá tækifæri með liðinu, segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar hann fékk að vita um tækifæri á að semja við Liverpool.

„Ég hef elskað þetta félag frá því ég var ungur og ég vissi að þetta væri liðið sem ég vildi spila með. Ég vissi um sögu félagsins og um leið ég fékk tækifæri til að koma þá varð ég að láta það gerast,“ segir Salah í viðtali við tímaritið FourFourTwo.

Salah, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn Liverpool til ársins 2022 en lið eins og Real Madrid hafa sýnt áhuga á að fá Egyptann til liðs við sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert