Flugeldasýning hjá Liverpool - Ronaldo með tvö

Sadio Mané fagnar marki sínu í kvöld ásamt Andrew Robertson.
Sadio Mané fagnar marki sínu í kvöld ásamt Andrew Robertson. AFP

Liverpool bauð upp á flugeldasýningu Estádio do Dragao leikvanginum í Porto í kvöld en liðið burstaði Porto, 5:0 í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í knattspyrnu. Á Santiago Bernabeu hrósaði Real Madrid 3:1 sigri gegn Paris SG.

Liverpool eins og Manchester City getur farið að undirbúa sig undir átta liða úrslitin en lærisveinar Jürgens Klopp tóku liðsmenn Porto í kennslustund. Porto réð ekki við frábæra sóknarlínu Liverpool en þeir Sadio Mané, Mohamed Salah og Firmino sýndu enn og aftur snilli sína.

Mané skoraði þrennu í leiknum og þeir Salah og Firmino skoruðu sitt markið hvor en staðan í hálfleik var, 2:0. Salah hefur þar með skorað 30 mörk á leiktíðinni og samanlagt hafa þessir þrír skorað yfir 50 mörk. Liverpool er það lið sem hefur skorað flest mörk í Meistaradeildinni á tímabilinu eða 28 talsins.

Cristiano Ronaldo fagnar síðara marki sínu í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar síðara marki sínu í kvöld. AFP

Evrópumeistarar Real Madrid lendu undir gegn Paris SG á heimavelli. Adrien Rabiot kom Parísarliðinu í forystu á 33. mínútu. Cristiano Ronaldo jafnaði metin úr vítaspyrnu á lokamínútunni í fyrri hálfleik og hann skoraði þar með sitt 100. mark fyrir Real Madrid í Meistaradeildinni.

Það stefndi allt í jafntefli en á síðustu sjö mínútum leiksins skoruðu Evrópumeistararnir tvívegis. Ronaldo skoraði á 83. mínútu, sitt 116. mark í Meistaradeildinni og 12. á leiktíðinni í Meistaradeildinni og Brasilíumaðurinn Marcelo bætti þriðja markinu við þremur mínútum síðar.

Porto 0:5 Liverpool opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er 2 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert