Bað bænirnar eftir magnaðan sigur

Paul Cook knattspyrnustjóri Wigan.
Paul Cook knattspyrnustjóri Wigan. AFP

Paul Cook knattspyrnustjóri enska C-deildarliðsins Wigan lokaði augunum og bað bænirnar eftir magnaðan sigur á móti Manchester City í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöld.

Líklega eru þetta óvæntustu úrslit tímabilsins á Englandi enda Wigan í C-deildinni á meðan Manchester City á Englandsmeistaratitilinn vísan og hefur spilað stórkostlega á tímabilinu.

„Tilfinningin er frábær. Þetta var svo stórt próf sem leikmenn mínir þreyttu. Manchester City er svo gríðarlega öflugt lið en við höfðum heppnina með okkur nokkrum sinnum í leiknum. Strákarnir mínir frá mikið hrós fyrir þá vinnu sem þeir lögðu í leikinn.

Þeir börðust eins og hetjur, hentu sér fyrir alla bolta og til að vinna lið eins og City þá þarftu að gera það,“ sagði Cook eftir leikinn í aðdraganda hans hafði hann gantast með það að lið sitt fengi leyfi til að tefla fram 14 leikmönnum í leiknum til að eiga einhverja möguleika gegn City-liðinu.

Wigan mætir Southampton í átta liða úrslitunum.

„Ég er viss um að Southampton er eins hissa og við því leikmenn liðsins hafa örugglega hugsað um hversu vonsviknir þeir voru að þurfa að fara á Ethiad völlinn,“ sagi Cook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert