Okkar fótbolti er ekkert rusl

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton.
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton. AFP

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, þvertekur fyrir að liðið spili leiðinlegan fótbolta undir hans stjórn. Everton mætir Watford síðdegis á morgun í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Allardyce var ráðinn til loka þessa tímabils, þegar hann tók við af Ronald Koeman fyrr í vetur. Hann segir framhaldið ráðast af frammistöðu Everton og gengi liðsins, en tók illa í vangaveltur staðarmiðilsins Liverpool Echo þess efnis að stuðningsmenn Everton hefðu ekki sérlega gaman af leikstíl liðsins:

„Okkar fótbolti er ekkert rusl. Við höfum spilað flottan fótbolta miðað við það sem við erum að reyna að ná. Gamla orðsporið passar ekki núna ef þú spyrð leikmennina, og menn ættu að skoða fótboltann sem við höfum spilað síðan að ég kom hingað,“ er haft eftir Allardyce á vef Echo.

Everton hefur safnað 19 stigum undir stjórn Allardyce, unnið 5 deildarleiki af 13 og skorað í þeim 15 mörk.

„Sumt hefur ekki verið nægilega gott þegar horft er til úrslita, og leikirnir gegn Tottenham og Arsenal voru óásættanlegir, en fótboltinn sem við reynum að spila hentar þeim leikmönnum sem við höfum, kerfinu sem við notum, og ég hef aldrei spilað sama fótbolta hjá þeim félagsliðum sem ég hef verið hjá,“ sagði Allardyce.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert