United skellti Liverpool í stórleiknum

Leikmenn Manchester United fagna öðru af tveimur mörkum Marcus Rashford …
Leikmenn Manchester United fagna öðru af tveimur mörkum Marcus Rashford í fyrri hálfleik. AFP

Manchester United styrkti stöðu sína í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 2:1-sigur á Liverpool í stórleik á Old Trafford í dag. United er nú fimm stigum á undan Liverpool sem situr í þriðja sætinu.

Liverpool var meira með boltann í upphafi á meðan leikmenn United biðu átekta. Það virkaði vel, því strax á 14. mínútu skoraði Marcus Rashford fyrsta mark leiksins fyrir United. Eftir langt útspark skallaði Romelu Lukaku boltann á Rashford, sem sneri af sér Trent Alexander-Arnold í vörn Liverpool og skoraði með þrumuskoti. Staðan 1:0.

Stuðningsmenn United þurftu ekki að bíða nema í tíu mínútur eftir öðru marki og aftur var Rashford á ferðinni. Eins og í fyrra markinu byrjaði sóknin á löngu útsparki, Lukaku þræddi boltann í gegnum vörnina þaðan sem hann barst óvænt til Rashford sem skoraði af svipuðum stað vinstra megin í teignum. Staðan 2:0 í hálfleik og leikmenn Liverpool virtust lánlausir.

Eric Bailly skorar sjálfsmark og breytir stöðunni í 2:1.
Eric Bailly skorar sjálfsmark og breytir stöðunni í 2:1. AFP

Skrautlegt sjálfsmark hleypti spennu í leikinn

Liverpool var áfram meira með boltann eftir hlé án þess þó að ógna marki United að neinu ráði. Það kom því nokkuð óvænt til að Liverpool skoraði, en Eric Bailly í vörn United skoraði þá skrautlegt sjálfsmark á 66. mínútu. Sadio Mané sendi fyrir markið og í stað þess að ná að hreinsa frá þá fékk Bailly boltann í hælinn þaðan sem hann fór í bláhornið. Staðan orðin 2:1.

Liverpool pressaði stíft í leit að jöfnunarmarkinu og það gaf þeim von að sex mínútum var bætt við venjulegan leiktíma. United hélt hins vegar út og uppskar 2:1-sigur, sem styrkir stöðu liðsins verulega í öðru sætinu.

United er nú með 65 stig, fimm stigum meira en Liverpool sem er í þriðja sæti með 60 stig og getur raunar misst það í hendur Tottenham sem á leik til góða. Manchester City er hins vegar með 13 stiga forskot á toppnum og á einnig leik til góða.

Man. Utd 2:1 Liverpool opna loka
90. mín. Liverpool fær hornspyrnu Liverpool-menn pressa og pressa enda tíminn að hlaupa frá þeim.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert