Manchester City lýgur um áhorfendatölur

Það er oft ansi tómlegt á Etihad-vellinum í Manchester.
Það er oft ansi tómlegt á Etihad-vellinum í Manchester. AFP

Samkvæmt opinberum tölum Manchester City eru að meðaltali um 54 þúsund áhorfendur á hverjum heimaleik á Etihad-vellinum í Manchester sem tekur 55.097 manns í sæti. Nú hefur lögreglan í Manchester borið brigður á þessar tölur en hún annast öryggisgæslu í kringum leiki liðsins og heldur eigin tölfræði um fjölda gesta á Etihad.

Samkvæmt lögreglunni hefur meðalaðsókn á leik City verið um 46 þúsund manns en það er töluvert undir þeim tölum sem félagið sjálft gefur út.

Í nóvember var gefið upp af félaginu að 53.407 manns hafi séð City vinna 2:1-sigur á Southampton en lögreglan telur að aðeins um 38 þúsund hafi í raun mætt á þann leik.

Sjónvarpsstöðvarnar vandamálið

Formaður stuðningsmannafélags City segir vandamálið vera sjónvarpsstöðvarnar sem eiga réttinn að útsendingu leikjanna.

„Sjónvarpsstöðvarnar færa leikina að vild, oft á kostnað þeirra stuðningsmanna sem borga fyrir ársmiðana sína. Þegar leikir eru færðir með stuttum fyrirvara eða spilaðir seint á kvöldin þá mæta færri,“ sagði hann en bætti svo við að ósanngjarnt væri að beina bara spjótum að City.

„Ég var á Southampton-leiknum og að mínu mati voru fleiri en 38 þúsund manns þar. Ég tel okkur vera með gott kerfi í kringum miðasölu og verðið er sanngjarnt, við erum ekki með færri tóm sæti en önnur lið þótt við séum oft skotspónn gagnrýnenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert