Liverpool flaug í undanúrslitin

Liverpool er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í fyrsta skipti í tíu ár eftir að hafa lagt Manchester City, 2:1, að velli á Etihad-leikvanginum í Manchester og vann þar með einvígi liðanna samanlagt 5:1.

City fékk þó óskabyrjun því Gabriel Jesus skoraði strax á 2. mínútu. City sótti linnulítið allan fyrri hálfleikinn, Bernardo Silva átti hörkuskot í stöng undir lok hans og þá var mark dæmt af Leroy Sané sem mikið var deilt um. City var 1:0 yfir í hálfleik og Liverpool 3:1 yfir samanlagt.

Pep Guardiola knattspyrnustjóra City var heitt í hamsi vegna marksins sem dæmt  var af City og eftir orðastað við dómarann í hálfleik var honum  vísað af varamannabekk City og varð að sitja uppi í áhorfendastúku í seinni hálfleiknum.

Liverpool komst betur inn í leikinn eftir hlé og gerði nánast út um einvígið á 56. mínútu þegar Mohamed Salah jafnaði metin í 1:1. Þegar Roberto Firmino bætti við marki fyrir Liverpool á 77. mínútu var ljóst að úrslitin voru ráðin því þá hefði City þurft að skora  fimm mörk til að fara áfram.

Manchester City - Liverpool 1:2 (1:5)
Gabriel Jesus 2. -- Mohamed Salah 56., Roberto Firmino 77.

Roma - Barcelona 3:0 (4:4)
Edin Dzeko 6., Daniele De Rossi 58.(víti), Kostantinos Manolas 82.

Man. City 1:2 Liverpool opna loka
90. mín. Leik lokið Liverpool er komið í undanúrslit, vinnur 5:1 samanlagt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert