Vill vinna Meistaradeildina frekar en gullskóinn

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP

Egyptinn Mohamed Salah í liði Liverpool segist frekar vilja vinna Meistaradeildina heldur en standa uppi sem markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar.

Salah hefur farið á kostum á sinni fyrstu leiktíð með Liverpool og hann skoraði sitt 40. mark á tímabilinu í öllum keppnum í 3:0 sigri gegn Bournemouth um nýliðna helgi. Salah er markahæstur í deildinni með 30 mörk, hefur skorað fimm mörkum meira en Harry Kane, framherji Tottenham.

„Ef ég á að velja þá myndi ég auðvitað velja það vinna Meistaradeildina. Það er engin spurning í mínum huga. Að vinna Meistaradeildina er virkilega stórt fyrir alla og mér er sama um allt annað,“ segir Salah í viðtali við enska blaðið Daily Mail.

Salah er aðeins tveimur mörkum frá því að bæta met yfir flest mörk frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar. Þrír leikmenn eiga metið í dag en Alan Shearer, Cristiano Ronaldo og Luis Suárez skoruðu allir 31 mark á einu tímabili í deildinni.

„Auðvitað er ég með gullskóinn í huganum. Ég get ekki logið því. Þið sjáið að allir í liðinu reyna að senda boltann á mig og hjálpa mér. Ég er líka viss um að leikmenn Tottenhan reyni að hjálpa Kane og leikmenn Manchester City Agüero.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert