Gylfi á góðri leið en ekki klár í slaginn

Gylfi Þór Sigurðsson í búningi Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson í búningi Everton. AFP

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er á góðri leið í endurhæfingu sinni vegna meiðsla sem hann varð fyrir á hné í leik Everton gegn Brighton í marsmánuði í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur ekkert komið við sögu hjá Everton síðan þá.

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Gylfa, ræddi við enska blaðamenn í dag vegna leiks Everton gegn Newcastle á mánudagskvöld.

Að sögn Allardyce er Gylfi þó ekki til taks.

„Sigurðsson hefur „tekið miklum framförum“ en er ekki til taks“ hafði blaðamaðurinn Phil Kirkbride hjá Liverpool Echo eftir Allardyce á Twitter í dag.

Gylfi Þór hefur verið í meðferð hjá sjúkraþjálfurum eftir meiðslin en hann þurfti á tímabili að ganga með hækjur og var með spelku á hné. Í fyrstu eftir leikinn var óttast að HM væri í hættu hjá Gylfa en það birti aftur á móti fljótlega til aftur. Óvíst er hvort Gylfi muni ná að spila með Everton á þessari leiktíð en fastlega er gert ráð fyrir því að hann verði klár í slaginn með íslenska landsliðinu í Rússlandi í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert