Klopp ætlar að taka ársfrí eftir Liverpool

Jürgen Klopp ætlar að taka sér ársfrí þegar hann hættir …
Jürgen Klopp ætlar að taka sér ársfrí þegar hann hættir sem stjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar ekki að ílengjast í starfi þjálfara og mun hann taka sér ársfrí frá fótbolta þegar hann yfirgefur Bítlaborgina, en hann hefur stýrt Liverpool síðan 2015.

„Það er mögulegt að ég endi feril minn mikið fyrr en aðrir þjálfarar gera,“ sagði Klopp í viðtali við þýska fjölmiðla.

„Ég vil ekki deyja á varamannabekknum, eftir Liverpool mun ég taka eins árs frí. Það er samkomulag sem ég gerði við fjölskylduna.“

Þjóðverjinn geðþekki er þó ekki á þeim buxunum að hætta hjá Liverpool nærri því strax og ætlar hann að vera út samning sinn hjá félaginu þrátt fyrir að hafa verið orðaður við stjórastarfið hjá Bayern Munchen nýlega.

„Það eru fjögur ár eftir af samningi mínum hérna og félagið er ánægt með mig, það er engin klásúla sem kveður á um hvernig ég get rift samningi og þess vegna reyndi Bayern ekki að fá mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert