Liðsfélagi vill að Pogba þroskist

Pogba á ferðinni gegn Bournemouth í vikunni.
Pogba á ferðinni gegn Bournemouth í vikunni. AFP

Nemanja Matic, miðjumaður Manchester United, talar ekki undir rós um samherja sinn, Paul Pogba, sem hefur átt misjafna frammistöðu í vetur.

„Leikmaður í þessum gæðaflokki þarf að vera með meira sjálfstraust og taka ábyrgð innan vallar,“ sagði Matic á blaðamannafundi í aðdraganda bikarleiks Manchester United við Tottenham í dag.

„Auðvitað er hann enn ungur. Hann mun halda áfram að taka framförum og hann sýndi á móti Manchester City að hann getur spilað vel. Þar tók hann ábyrgð, skoraði og gaf leikmönnum í kringum sig meira sjálfstraust. Eftir að hann skoraði trúðum við að við gætum komið til baka.“

Pogba er 25 ára gamall og er á sínu öðru tímabili hjá félaginu. Fyrr í vikunni skoraði Mourinho, knattspyrnustjóri Mancherster United, á Pogba að standa sig betur, en portúgalski þjálfarinn er ekki nógu ánægður með frammistöðu kappans í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert