Aron frábær en stjórinn ekkert að missa sig

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Ljósmynd/Cardiff

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson átti frábæran leik í búningi Cardiff í gær er hann var hetjan og skoraði sigurmarkið í dýrmætum sigri liðsins á Nottingham Forest, 2:1, í ensku B-deildinni. Var þetta fyrsta mark Arons fyrir Cardiff í 12 mánuði.

Cardiff hefur 86 stig er þrír leikir eru eftir hjá liðinu. Cardiff á leik til góða á Fulham sem hefur 85 stig í 3. sæti og Warnock var að vonum afar sáttur með sigurinn.

Mark Arons  á 74. mínútu var einkar glæsilegt og en Þórsarinn klippti boltann á lipurlegan hátt í netið af stuttu færi etir að boltinn barst til hans í teignum eftir aukaspyrnu. Eftir markið var Aron Einar svo lykilmaðurinn í að sigla sigrinum í höfn fyrir Cardiff og bjargaði nánast marki er Bruno Ecuele Manga, liðsfélagi Arons missti boltann í vörninni hjá Cardiff.

Spurður af Wales Online um hvað honum þætti um frammistöðu Arons var Warnock hins vegar ekkert að missa sig í gleðinni.

„Mér fannst allir þrír miðjumennirnir lélegir fyrstu 20 mínúturnar en það var af því að við lágum of djúpt. Bilið á milli línanna var of mikið. Þegar að miðverðirnir fóru framar vorum við miklu betri. Við áttum leikinn eftir það,“ sagði Warnock sem er afar stoltur af sínu liði að vera enn í 2. sætinu þar sem Fulham hefur spilað 22 leiki í röð án þess að tapa í þriðja sætinu.

„Hvað ætli Fulham-menn séu að hugsa? 22 leikir án þess að tapa og viðerum ennþá þarna eins og útbrot sem fer ekki,“ sagði Warnock sem er afar ánægður með hópinn sinn.

„Ég hef stýrt frábærum liðum en þetta er á pari við þau bestu. Það hefur þann karakter sem þarf til þess að fara upp,“ sagði Warnock.

Neil Warnock.
Neil Warnock. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert