Salah bestur og Sané efnilegastur

Mohamed Salah hefur átt frábært tímabil með Liverpool.
Mohamed Salah hefur átt frábært tímabil með Liverpool. AFP

Mohamed Salah, egypski framherjinn hjá Liverpool, var í kvöld útnefndur besti leikmaður tímabilsins 2017-18 í ensku úrvalsdeildinni af Samtökum atvinnuknattspyrnumanna.

Salah hefur farið á kostum með Liverpool í vetur, skorað 31 mark í úrvalsdeildinni og 10 til viðbótar á tímabilinu í heild. Hann kom til félagsins frá Roma síðasta sumar. Salah hefur leikið 57 landsleiki fyrir Egyptaland og skorað í þeim 33 mörk en hann er 25 ára gamall.

Leroy Sané, þýski kantmaðurinn hjá Manchester City, var útnefndur efnilegasti leikmaður deildarinnar.

Sané er 22 ára gamall og er að ljúka öðru tímabili sínu með Manchester City en hann kom þangað frá Schalke. Hann á að baki 11 landsleiki fyrir Þýskaland og er enn gjaldgengur í 21-árs landslið.

Fran Kirby, framherji hjá Chelsea, var útnefnd besti leikmaður tímabilsins í úrvalsdeild kvenna og Lauren Hemp, framherji hjá Bristol City, var útnefnd sú efnilegasta í þeirri deild.

Kirby er 24 ára ensk landsliðskona og hefur leikið með Chelsea frá 2015 en lið hennar er efst í úrvalsdeildinni og mætti Wolfsburg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í dag. Hún á að baki 30 landsleiki fyrir England og hefur skorað í þeim 10 mörk. 

Hemp er aðeins 17 ára gömul og hefur verið fyrirliði yngri landsliða Englands síðustu ár. Hún var valin efnilegasta landsliðsstúlka Englands 2017 og hefur vakið athygli með Bristol City í vetur.






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert