Wenger tapaði fyrir Val

„Þurfið þið nú endilega að rifja þennan leik upp?“ gæti …
„Þurfið þið nú endilega að rifja þennan leik upp?“ gæti Arsene Wenger verið að segja á þessari mynd. AFP

Franski knattspyrnustjórinn Arsene Wenger hefur verið fyrirferðamikill í enskum fjölmiðlum og víðar síðan á föstudag vegna þess að hann ætlar að láta af störfum eftir tuttugu og tvö ár hjá Arsenal. Fyrsti Evrópuleikur Arsene Wenger sem þjálfara var á Laugardalsvelli og hann tapaðist. 

Wenger mætti þá með lið Mónakó síðsumars 1988 sem dróst gegn Íslandsmeisturum Vals í 2. umferð Evrópukeppni meistaraliða sem síðar var stækkuð og breytt í Meistaradeild Evrópu. 

Atli Eðvaldsson í baráttu gegn Frökkunum á Laugardalsvellinum í ágúst …
Atli Eðvaldsson í baráttu gegn Frökkunum á Laugardalsvellinum í ágúst 1988. mbl.is/Einar Falur

Í liði Mónakó var ungur framherji frá Líberíu, George Weah, sem síðar átti eftir að verða knattspyrnumaður árins í Evrópu og forseti í heimalandi sínu. Englendingurinn reyndi Glenn Hoddle var á miðjunni og í hópnum var ungur og upprennandi franskur miðtengiliður, Emannuel Petit. Þá voru tveir úr Evrópumeistaraliði Frakka frá 1984: Manuel Amoros og Patrick Battiston. 

Í liði Vals var til að mynda núverandi formaður KSÍ: Guðni Bergsson. Einnig Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og landsliðsfyrirliði. Svo fór að Atli skoraði eina marks leiksins á Laugardalsvellinum fyrir framan 2.799 áhorfendur. Vörn Vals sem hélt hreinu gegn Wenger og Mónakó var ógnarsterk á þessum árum en þar voru einnig Sævar Jónsson, fyrrverandi landsliðsmaður, og Þorgrímur Þráinsson, núverandi landsliðsnefndarmaður hjá KSÍ. 

Úr Morgunblaðinu 1988.
Úr Morgunblaðinu 1988.

Í furstadæminu hafði Mónakó betur 2:0 og fór því naumlega áfram. Þar skoraði George Weah af 30 metra færi en hitt mark Mónakó var sjálfsmark. Mark Hateley var einnig í liði Mónakó þetta tímabilið en var ekki leikfær í leikjunum gegn Val. 

Guðni Bergsson var í hjarta varnarinnar gegn Mónakó en átti …
Guðni Bergsson var í hjarta varnarinnar gegn Mónakó en átti svo sem eftir að mæta Arsene Wenger síðar á öðrum vettvangi. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert