Mourinho þarf að éta ofan í sig gífuryrði

José Mourinho kaus sennilega einhvern annan.
José Mourinho kaus sennilega einhvern annan. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, neyðist nú til að éta ofan í sig gífuryrði sem hann lét falla í viðtali snemma á síðasta ári.

Á blaðamannafundi í janúar 2017, á fyrsta tímabili Portúgalans, hafði hann orð á því að ekki gæti allt verið með felldu hjá félagi þar sem markvörðurinn er sífellt kjörinn leikmaður ársins hjá félaginu.

Það var nefnilega þannig að David de Gea, markvörður United, hafði verið kjörinn leikmaður ársins hjá félaginu þrjú ár í röð, undir stjórn forvera Mourinho, þeirra David Moyes og Louis van Gaal.

„Ég tel að ef markvörður er valinn leikmaður ársins, þá er það vegna þess að eitthvað er að,“ sagði Mourinho við blaðamenn. „Vonandi verður David ekki valinn leikmaður ársins aftur í ár.“

Portúgalanum varð vissulega að ósk sinni í fyrra. Landi de Gea, miðjumaðurinn Ander Herrera varð efstur í kjöri félagsins en í kvöld valdi United besta leikmann þessa tímabils: Markvörðinn David de Gea.

Mourinho hefur þurft að sæta þó nokkurri gagnrýni á tímabilinu og þarf nú að éta ofaní sig ummælin fleygu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert