Emery fær fjármagn til leikmannakaupa

Unai Emery skrifaði undir þriggja ára samning við Arsenal í …
Unai Emery skrifaði undir þriggja ára samning við Arsenal í vikunni sem leið. AFP

Unai Emery, nýráðinn knattspyrnustjóri Arsenal sem leikur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, mun fá fjármagn til þess að kaupa nýja leikmenn í sumar en það er Telegraph sem greinir frá þessu. Emery hefur stýrt liði PSG í Frakklandi, undanfarin tvö ár en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í vikunni sem leið.

Telegraph greinir frá því að stjórinn muni fá í kringum 70 milljónir punda til þess að styrkja leikmannahóp sinn en varnarleikur liðsins hefur verið harðlega gagnrýndur á undanförnum árum. Þá er Emery sagður vera á eftir nýjum varnarsinnuðum miðjumanni en Granit Xhaka hefur ekki heillað stuðningsmenn liðsins síðan hann kom frá Borussia Mönchengladbach árið 2016.

Arsenal endaði tímabilið í sjötta sæti ensku úrvaldeildarinnar með 63 stig og var 12 stigum frá Meistaradeildarsæti. Liðið mun því spila í Evrópudeildinni á næstu leiktíð, annað árið í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert