Fulham í ensku úrvalsdeildina

Leikmenn Fulham fagna með Tom Cairney, fyrirliða liðsins sem skoraði …
Leikmenn Fulham fagna með Tom Cairney, fyrirliða liðsins sem skoraði sigurmarkið í dag. AFP

Aston Villa og Fulham mættust í úrslitaleik enska B-deildarumspilsins á Wembley í dag í leik um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem Fulham fór með sigur af hólmi, 1:0.

Það var Tom Cairney, fyrirliði Fulham, sem skoraði sigurmarkið á 23. mínútu. Á 70. mínútu fékk Denis Odoi, varnarmaður Fulham, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt og Fulham því einum manni færri, síðustu tuttugu mínútur leiksins.

Leikmenn Aston Villa reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og Fulham fagnar því sigri og mun spila í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Birkir Bjarnason sat allan tímann á varamannabekk Aston Villa í dag og kom ekki við sögu í leiknum.

Fulham hafnaði í þriðja sæti deildarkeppninnar með 88 stig, tveimur stigum minna en Cardiff sem fór beint upp í úrvalsdeildina, ásamt Wolves en Aston Villa endaði deildarkeppnina í fjórða sæti með 83 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert