Sættir sig ekki við tilboð United

Marouane Fellaini.
Marouane Fellaini. AFP

Belgíski landsliðsmaðurinn Maroune Fellaini hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik með liði Manchester United.

Samningur hárprúða miðjumannsins við Manchester United rennur út í sumar og hafa samningaviðræður United við leikmanninn ekki skilað neinu. Í frétt enska blaðsins Times í dag segir að Manchester United hafi boðið Fellaini nýjan eins árs samning en hann sættir sig ekki við hann.

Fellaini, sem er 30 ára gamall, óskaði eftir því að samningur hans yrði framlengdur um þrjú ár en forráðamenn United standa fastir við sitt og þar með er nokkuð ljóst að Belginn yfirgefi herbúðir United í sumar.

Ítalska liðið AC Milan er eitt þeirra liða sem hafa óskað eftir kröftum Fellaini og fregnir herma að félagið hafi boðið honum þriggja ára samning. Framtíð Belgans ætti að skýrast á næstu dögum en væntanlega vill hann vera búinn að fá sín mál á hreint fyrir HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert