Arsenal að landa Fellaini?

Marouane Fellaini er orðaður við Arsenal þessa dagana.
Marouane Fellaini er orðaður við Arsenal þessa dagana. AFP

Marouane Fellaini, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er eftirsóttur þessa dagana. Samningur Belgans við enska félagið rennur út um mánaðamótin og því er honum frjálst að semja við annað lið.

Félög í Tyrklandi hafa sýnt honum áhuga en Mail greinir frá því í kvöld að enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal íhugi nú að bjóða honum samning en Spánverjinn Unai Emery var ráðinn knattspyrnustjóri liðsins í síðasta mánuði. Belganum líður vel á Englandi og samkvæmt fréttum þar í landi er hann spenntastur fyrir því að spila áfram í ensku úrvalsdeildinni.

Fellaini hefur spilað á Englandi frá árinu 2008 en hann gekk til liðs við United árið 2013 frá Everton. Hann hefur ekki átt fast sæti í liði United undanfarin ár og það bendir fátt til þess að hann verði áfram á Old Trafford. Hann byrjaði aðeins fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð þar sem hann skoraði 4 mörk en hann er í belgíska landsliðshópnum sem fer á HM í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert