Pastore þarf að lækka launakröfurnar

Javier Pastore þarf að lækka launakröfur sínar ef hann vill …
Javier Pastore þarf að lækka launakröfur sínar ef hann vill ganga til liðs við West Ham. AFP

Javier Pastore, miðjumaður franska knattspyrnufélagsins PSG í Frakklandi, er við það að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið West Ham. Pastore hefur ekki átt fast sæti í liði PSG, undanfarin ár en hann kom til félagsins frá Palermo árið 2011.

PSG hefur samþykkt tilboð enska félagsins í leikmanninn sem hljóðar upp á 17,5 milljónir punda en leikmaðurinn vill fá 190.000 pund á viku en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Það er upphæð sem West Ham er ekki tilbúið að borga og því þarf leikmaðurinn að lækka launakröfur sínar umtalsvert ef skiptin eiga að ganga í gegn.

Pastore kom við sögu í 25 leikjum með PSG í frönsku 1. deildinni á þessari leiktíð þar sem hann skoraði 4 mörk og lagði upp önnur 5. Þá á hann að baki 29 landsleiki fyrir Argentínu þar sem hann hefur skorað 2 mörk en hann er ekki í argentínska landsliðshópnum sem fer á HM í Rússlandi sem hefst eftir tæpar tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert