Stuðningsmenn Real Madrid vilja Klopp

Stuðningsmenn Real Madrid vilja sjá Jürgen Klopp taka við liðinu …
Stuðningsmenn Real Madrid vilja sjá Jürgen Klopp taka við liðinu af Zinedine Zidane sem hætti sem knattspyrnustjóri félagsins á dögunum. AFP

Margir stuðningsmanna Real Madrid vilja Jürgen Klopp sem næsta knattspyrnustjóra félagsins en þetta kom fram í skoðanakönnun sem gerð var á meðal stuðningsmanna spænska liðsins. Klopp hefur stýrt liði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni frá árinu 2015 en liðið fór alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar í ár þar sem Liverpool tapaði fyrir Real Madrid, 3:1.

Zinedine Zidane, fyrrverandi knattspyrnustjóri Real Madrid, lét óvænt af störfum hjá félaginu í síðustu viku eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu, þriðja árið í röð. Klopp fékk 41% atkvæða í skoðanakönnuninni en Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, fékk 34% atkvæða.

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, var þriðji í kjörinu með 15% atkvæða og Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, fékk 9% atkvæða. Það verður að teljast ólíklegt að Klopp sé tilbúinn að hætta með Liverpool en hann er samningsbundinn enska félaginu til ársins 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert