Touré sakar Guardiola um kynþáttafordóma

Yaya Toure er mjög ósáttur með Pep Guardiola en sá …
Yaya Toure er mjög ósáttur með Pep Guardiola en sá fyrrnefndi er á förum frá félaginu þegar samningur hans rennur út um mánaðamótin. AFP

Yaya Touré, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, hefur sakað knattspyrnustjóra liðsins, Pep Guardiola, um að vera í nöp við leikmenn sem koma frá Afríku og eru dökkir á hörund. Samningur hans við City rennur út um næstu mánaðamót en hann hefur spilað með liðinu frá árinu 2010.

Síðan Guardiola tók við stjórnartaumunum hjá félaginu árið 2016 hefur Touré fengið lítið að spila en hann kom við sögu í sautján leikjum með félaginu á þessari leiktíð. Þeir unnu líka saman hjá Barcelona á sínum tíma, áður en Touré ákvað að söðla um og semja við City á Englandi en samband þeirra hefur oft á tíðum verið stormasamt.

„Það er mín tilfinning að Guardiola hafi gert allt til þess að eyðileggja mitt síðasta tímabil með liðinu. Hann var grimmur og leiðinlegur við mig. Hefði hann komið svona fram við Andres Iniesta hjá Barcelona? Ég spyr mig hvort þetta sé tengt húðlit mínum. Ég er ekki fyrsti leikmaðurinn sem lendi í þessu hjá honum, aðrir dökkir leikmenn Barcelona hafa líka spurt sig að því sama,“ sagði Touré í samtali við French Football.

„Kannski er komið öðruvísi fram við okkur leikmenn frá Afríku af ákveðnu fólki. Ég er ekki fyrsti leikmaðurinn frá Afríku sem hann lendir upp á kant við og kemur illa fram við. Þetta hefur gerst, hvar sem hann kemur. Þetta eru fordómar, sama hvað fólk segir. Hann er of klár til þess að láta koma upp um sig. Hann mun aldrei viðurkenna það að honum líki illa við leikmenn frá Afríku.“

„Ef sá dagur kemur, að hann muni velja fimm leikmenn frá Afríku í byrjunarliðið hjá sér þá mun ég senda honum köku. Ég hefði viljað kveðja félagið líkt og Iniesta og Buffon fengu að gera. Ég hef spilað hérna í átta ár og mér leið mjög vel hérna. Pep kom í veg fyrir það. Hann er stjóri sem vill hafa yfirhöndina í samskiptum sínum við leikmennina. Hann vill að allir kyssi á honum hendurnar en ég er ekki þannig leikmaður og hef aldrei verið,“ sagði Touré að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert