Allir á móti Pogba

Paul Pogba hefur fengið sinn skerf af gagnrýni að undaförnu.
Paul Pogba hefur fengið sinn skerf af gagnrýni að undaförnu. AFP

Pierre Mankowski, fyrrverandi þjálfari yngri landsliða Frakka í knattspyrnu, segir að það sé of mikil pressa sett á Paul Pogba, miðjumann Manchester United og franska landsliðsins. Pogba varð dýrasti leikmaður heims sumarið 2016 þegar United borgaði Juventus tæplega 90 milljónir punda fyrir hann en hann og Mankowski unnu mikið saman á yngri árum leikmannsins.

Hann hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir spilamennsku sína með United á þessari leiktíð og þá bauluðu stuðningsmenn franska landsliðsins á leikmanninn á dögunum. Mankowski telur að það séu allir á móti Pogba þessa dagana sem er einungis 25 ára gamall.

„Það eru allir á móti honum,“ sagði Mankowski í samtali við Le Parisien. „Við viljum alltaf fá meira frá honum en það má ekki gleymast að hann er leikmaður sem þroskaðist mjög snemma. Ef hann væri að skjótast fram á sjónarsviðið í dag myndum við segja að hann væri mjög góður leikmaður.“

„Það búast allir við svo miklu frá honum því hann var orðinn góður leikmaður þegar hann var 19 ára gamall. Það var keppst um að hrósa honum og sviðsljósið beindist snemma að honum. Fjölmiðlar byrjuðu að elska hann snemma og þeir fjölluðu mikið um hann. Það hefur komið niður á spilamennsku hans. Hann er góður knattspyrnumaður en það vilja allir sjá hann taka skrefið fram á við,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert