Fekir vill fara til Liverpool

Nabil Fekir hefur tjáð forseta Lyon að hann vilji ganga …
Nabil Fekir hefur tjáð forseta Lyon að hann vilji ganga til liðs við Liverpool. AFP

Nabil Fekir, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins Lyon er sterklega orðaður við Liverpool þessa dagana. Fekir fékk frí frá æfingum franska landsliðsins á dögunum til þess að reyna klára sín mál en Lyon og Liverpool hefur gengið illa að semja um kaupverðið á leikmanninum.

David Maddock, blaðamaður hjá Mirror greindi frá því fyrr í kvöld að leikmaðurinn hafi tilkynnt Jean-Michel Aulas, forseta Lyon að hann vilji eingöngu fara til Liverpool á Englandi. Franska félagið vill hins vegar fá 70 milljónir punda fyrir Fekir á meðan Liverpool er tilbúið að borga í kringum 50 milljónir punda fyrir hann.

Lyon er hins vegar að tryggja sér þjónustu Hatem Ben Arfa en hann er að renna út á samning hjá PSG. Lyon sér hann sem eftirmann Fekir og það ætti að greiða fyrir félagaskiptum Fekir til Liverpool. Enska félagið þarf hins vegar að hækka tilboð sitt umtalsvert, svo að félögin nái samkomulagi en Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool vill klára kaupin áður en heimsmeistaramótið í Rússlandi hefst í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert