Mané útilokar ekki að yfirgefa Liverpool

Sadio Mané er enn þá að jafna sig eftir tapið …
Sadio Mané er enn þá að jafna sig eftir tapið gegn Real Madrid í úrslitum Meistaradeildarinnar. AFP

Sadio Mané, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, útilokar ekki að yfirgefa Liverpool en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Enskir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í þessum mánuði að Mané hefði gert munnlegt samkomulag við Real Madrid um að ganga til liðs við félagið í sumar en það ku hafa breyst þegar Zinedine Zidane lét af störfum.

„Ég er mjög ánægður hjá Liverpool og ég á þrjú ár eftir samningi mínum við félagið en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér og ég útiloka ekki að yfirgefa félagið. Ég vil vinna titla, sérstaklega Meistaradeildina. Það er keppni sem mig dreymir um að vinna,“ sagði Mané á blaðamannafundi á dögunum.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá tók það sinn tíma að jafna sig á tapinu gegn Real Madrid í úrslitum Meistaradeildarinnar í vor. Við lögðum allir svo mikið á okkur til að komast til Kiev en Real Madrid var betra liðið í leiknum. Við töpuðum gegn besta liði heims. Tapið situr enn þá í mér en núna er heimsmeistaramótið að byrja og ég er einbeittur á að gera vel fyrir Senegal,“ sagði leikmaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert