Giroud lánaður til Madríd?

Olivier Giroud fagnar heimsmeistaratitlinum með franska landsliðinu.
Olivier Giroud fagnar heimsmeistaratitlinum með franska landsliðinu. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Atlético Madrid hefur óskað eftir því við Chelsea að fá franska landsliðsframherjann Olivier Giroud lánaðan, samkvæmt heimildum Sky Sports.

Giroud kom til Chelsea frá Arsenal í janúar á þessu ári og skoraði þrjú mörk í þrettán leikjum fyrir liðið. Hann spilaði alla sjö leiki Frakka á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar en náði ekki að skora fyrir heimsmeistarana.

Sky Sports segir að talið sé að Chelsea vilji frekar selja Giroud til Spánar en að lána hann. Giroud er 31 árs og lék með Arsenal í sex ár en þar gerði hann 73 mörk í 180 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert