Real á von á Courtois á fimmtudaginn

Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Thibaut …
Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Thibaut Courtois gangi til liðs við Real Madrid í sumar. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid reikna með því að Thibaut Courtois, markmaður Chelsea, mæti til Madrídar á morgun en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Courtois hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid í allt sumar en hann hefur ekki enn þá mætt á æfingu hjá Chelsea í sumar, þrátt fyrir að hafa snúið aftur til félagsins um síðustu helgi.

Courtois verður samningslaus hjá Chelsea næsta sumar og hefur hann ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið. Hann vill spila í Meistaradeild Evrópu og vill því komast burt en Real Madrid er sagt tilbúið að borga í kringum 40 milljónir punda fyrir markmanninn. Hann þekkir vel til í Madrid en hann spilaði með Atlético Madrid á árunum 2011 til 2014. 

Courtois stóð á milli stanganna hjá Belgíu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi þar sem Belgar unnu til bronsverðlauna eftir 2:0-sigur á Englandi í leik um þriðja sætið í Pétursborg. Hann var valinn besti markmaður heimsmeistaramótsins fyrir frammistöðu sína í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert