Besta ákvörðun sem ég hef tekið

David Silva.
David Silva. AFP

David Silva, miðjumaðurinn frábæri í liði Englandsmeistara Manchester City, segist hafa tekið bestu ákvörðun lífs síns þegar hann gekk í raðir Manchester City fyrir átta árum.

City keypti Silva frá spænska liðinu Valencina í júlí 2010 en Silva var þá 24 ára gamall. Barcelona og Real Madrid voru bæði með Silva í sigtinu en hann segir að ákafur vilji Manchester City að fá sig hafi ráðið úrslitunum.

„City vildi fá mig. Forráðamenn liðsins byrjuðu að hafa samband í desember þar sem þeir báðu mig um að koma og spila með þeim. Ég hugsaði, hver vill mig? City vill fá mig svo þangað fer ég,“ segir Silva, sem hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár.

„Á þessum tíma bjó ég hjá foreldrum mínum. Þau voru að skilja svo mér fannst þetta rétti tíminn til að fara frá Spáni og upplifa nýja reynslu.“

Silva hefur þrisvar sinnum hampað enska meistaratitlinum með Manchester City og hefur unnið sjö titla með liðinu frá því hann kom til þess. Þá varð hann heimsmeistari með Spánverjum og tvisvar sinnum Evrópumeistari. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið.

„Samningur minn við City rennur út eftir tvö ár og eftir það veit ég ekki hvað tekur við. Það veltur á því hvernig ég verð andlega og líkamlega. Ég hef alltaf sagt að ég vilji spila fyrir Las Palmas, mitt heimafélag. En við sjáum til hvernig hlutirnir verða eftir tvö ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert